Tölvu- og verkfræðiþjónustan

Inngangur
Tölvu- og verkfræðiþjónustan er stofnuð 1. mars 1986 af Halldóri Kristjánssyni verkfræðingi sem er eigandi hennar. Hún hefur starfað óslitið síðan. Í mars 2002 var fyrirtækinu breytt í einkahlutafélag og eru öll hlutabréfin í eigu Halldórs Kristjánssonar.

Í starfi fyrirtækisins er lögð áhersla á trausta ímynd, trúnað og fagmennsku. Það er lykilatriði að vera óháð og að fara eftir siðareglum verkfræðinga og Skýrslutæknifélags Íslands.

Húsnæði
Í upphafi var fyrirtækið til húsa í Ármúla 5, en fluttist í eigið húsnæði að Grensásvegi 16, 19. desember 1987, og hefur verið þar síðan.

Árið 1987 var í eigu okkar skrifstofu- og kennsluhúsnæði sem var alls 130 fm, tvær kennslustofur, þrjár skrifstofur og rúmgóð kaffi- og fundarstofa auk snyrtingar, í norðurenda annarra hæðar. Smám saman hefur öll 2. hæðin á Grensásvegi 16 verið keypt en húsnæðið er samtals um 460 fm, 5 kennslustofur, rúmgóðar kaffistofur, 5 skrifstofur, tvö fundarherbergi og 3 snyrtingar.

Fjárhagsleg staða
Tölvu- og verkfræðiþjónustan stendur traustum fótum . Lögð er áhersla á trausta ímynd fyrirtækisins í fjármálum og að standa í skilum við alla.

Starfsmenn
Nokkrir fastráðnir starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu auk þess sem aðrir starfsmenn eru í hlutastarfi og leitað er til verktaka þegar álag er mikið. Flestir hafa starfsmenn orðið 10.

Við leitum í ríkum mæli til sérfræðinga með mikla þekkingu á tölvumálum við lausn verkefna en reynum að tryggja að við höfum ávallt þann fjölda fastráðinna starfsmanna sem verkefnin hverju sinni kalla á.

Tölvuskóli
Tölvu- og verkfræðiþjónustan hefur rekið tölvuskóla frá því í október 1986. Er hann því elsti samfellt starfandi tölvuskóli á landinu. Mest áberandi eru námskeið um notkun hugbúnaðar á PC tölvum en einnig eru haldin margvísleg námskeið um tölvumál fyrir sérfræðinga og kröfuharðari tölvunotendur:

  • Öryggismál tölvukerfa
  • Tölvuvæðing fyrirtækja
  • Tölvusamskipti
  • Netámskeið
  • Forritun

Alls eru haldin um 200 - 400 námskeið á ári og um 1.000 manns sækja skólann árlega. Á árinu 2001 sóttu um 3.500 manns námskeið hjá okkur. Einnig eru haldin námskeið hjá fyrirtækjum og má nefna Vegagerðina, Sparisjóðina og Landspítalann Háskólasjúkrahús meðal þeirra stærstu. Vorið 1997 buðum við í fyrsta sinn upp á fjarnám á tölvur hér á landi. Frá upphafi hafa meira en 47.000 manns sótt námskeið hjá okkur.

Þekkingarpróf
Í vaxandi mæli krefst vinnumarkaðurinn þess að starfsmenn staðfesti þekkingu sína með formlegum hætti. Við höfum lengi verið í fararbroddi á því sviði og bjóðum nú mest úrval prófa hér á landi.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu okkar um prófin.

Við bjóðum þekkingarpróf frá Pearson - VUE og Prometric fyrir Microsoft, Novell og fjölda annarra sérfræðinga.

Viðurkenndur skóli og þekkingarfyrirtæki
Á hverjum tíma leitum við eftir því að starfsemi okkar sé vottuð af innlendum og erlendum aðilum eftir því sem við teljum það þjóna hagsmunum okkar og viðskiptavina okkar. Í júlí 2003 hlutum við viðurkenningu Microsoft á yfirburða þekkingu okkar á Microsoft hugbúnaði og við erum einnig viðurkennd af menntamálaráðuneyti sem einkaskóli á framhaldsskólastigi.

Á hverjum tíma hafa tveir eða fleiri starfsmenn okkar lokið Microsoft Certified Professional (MCP) gráðu.

Útgáfustarf
Tölvu- og verkfræðiþjónustan hefur gefið út fjölmargar bækur um tölvumál og hefur ein þeirra selst í meira en 6.000 eintökum en hinar í minna upplagi. Um tíma var gefið út tímaritið Macblaðið. Um áramót 1994 kom út fyrsta eintak TölvuMeistarans sem var nýmæli í fræðslustarfi og útgáfu hér á landi. Áskrifendur fengu reglulega texta og diskling með forritum og efni. Útgáfu hans er nú hætt.

Yfirleitt eru námsgögn á námskeiðum fyrirtækisins unnin af starfsmönnum þess og hluti þeirra er seldur á almennum markaði. Þá gaf fyrirtækið út fréttabréfið Tölvuvísi 2-3 sinnum á ári og var því dreift til um 29.000 aðila, fyrirtækja, einstaklinga og stofnana. Útgáfu Tölvuvísis var hætt 2006 enda Internetið þá orðið ráðandi í kynningum á fyrirtækjum.

Ráðgjöf um tölvumál
Vegna þess hversu áberandi námskeið okkar hafa verið vill það gleymast að einn mikilvægasti þátturinn í starfsemi okkar er ráðgjöf til fyrirtækja og einstaklinga um tölvumál.

Í hópi þeirra sem leitað hafa til okkar í þessu skyni eru nokkur stærstu fyrirtæki landsins auk fjölda smærri fyrirtækja. Vegna trúnaðar við þau er ekki upptalning á þeim hér.

Í mörgum tilvikum hefur verið um að ræða heildarúttekt á tölvu- og upplýsingamálum fyrirtækjanna og aðstoð við mótun heildarstefnu. Þá fylgir oft gerð útboðslýsingar, útboð á búnaði og þjónustu, umsjón með samningum og eftirlit með framkvæmd þeirra.

Tölvu og verkfræðiþjónustan starfar samkvæmt siðareglum verkfræðinga og hefur ekki neina samninga við hug- eða vélbúnaðarsala né þiggur fyritækið neina þóknun frá þriðja aðila.

Þá höfum við ekki með höndum hugbúnaðargerð eða sölu búnaðar þannig að ekki kemur til hagsmunaárekstra þegar gerð hugbúnaðarkerfa er boðin út.

Unnin hafa verið verk fyrir mörg stærstu fyrirtæki landsins og hafa þau fjallað um hug- og vélbúnað fyrir tölvukerfi af mismunandi gerðum

Þá höfum við unnið að stefnumótun margra fyrirtækja í upplýsingamálum og verkefnastjórnun.

Sérsvið í ráðgjöf
Styrkur og þekking okkar liggur fyrst og fremst á eftirtöldum sviðum:

  • Staðarnet og netkerfi
  • Internetmál
  • Samskipti - jafnt tölvu- sem símakerfa
  • Macintosh- og PC-umhverfi
  • Stefnumótun
  • Útboð og samningar
  • Námskeið
  • Verkefnastjórnun

Samtengingar og nettengingar eru mikilvægur þáttur ráðgjafarinnar, val notendahugbúnaðar og skipulagning uppbyggingar kerfa og dreifing vinnslu.

Hafa samband